Klukkutíma seinkun varð á flugi Icelandair frá Kaupmannahöfn til Íslands í gærkvöldi vegna þriggja farþega sem mættu ekki þegar vélin átti að fara í loftið. Það kom síðar í ljós að farþegarnir voru í annarlegu ástandi.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við mbl.is að það hafi orðið að taka farangur þremenninganna, sem voru búnir að innrita sig um borð, úr vélinni áður en hún gat farið í loftið.
„Það tekur um hálftíma, klukkustund að fara í gegnum þetta ferli,“ segir Guðjón.
Hann segir ennfremur að farþegarnir hafi komið í leitirnar þegar unnið var að því að fjarlægja töskurnar og þá kom í ljós að þeir voru í annarlegu ástandi.
„Þeir voru í þannig ástandi að það var ekki hægt að hleypa þeim um borð,“ segir Guðjón.
Nánari upplýsingar um farþegana þrjá liggur ekki fyrir, t.d. hverrar þjóðar þeir séu.
Aðspurður segir Guðjón að atvik sem þessi heyri til undantekninga.