Forystumenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ gengu á fund forystumanna ríkisstjórnarinnar kl. 9 í morgun. Á fundinum átti að ræða um aðkomu stjórnvalda að gerð kjarasamninga.
Bæði ASÍ og SA hafa lagt mikla áherslu á eflingu atvinnulífs í viðræðum við stjórnvöld. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra taldi upp á Alþingi í gær nokkrar framkvæmdir sem hún sagði að gætu skapað um 2.300 störf.
Um er að ræða aukningu afkastagetu álversins í Straumsvík, framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, kísilmálmsverksmiðju í Helguvík, hreinkísilsverksmiðju í Grindavík og natríumklóratverksmiðju í Grundarfirði.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að þessi upptalning hljóma kunnuglega. Hann sagði að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningagerð þyrfti að vera sú að hagvöxtur verði tryggður.