Íslendingur viðriðinn barnaklámshring

Íslenskur karlmaður um þrítugt var handtekinn í tengslum við umfangsmikla rannsókn lögreglu í nokkrum löndum á barnaklámshring á Netinu. Á annað hundrað manns víðsvegar um heim voru handteknir í dag fyrir þátttöku sína í hringnum.

Alls eru um 50.000 manns taldir tengjast barnaklámshringnum en 184 voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í dag, meðal annars á Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og Brasilíu. Teygði málið einnig anga sína hingað til lands. 

Kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu bárust gögn um málið síðasta sumar en í þeim var íslensk IP-tala (einkennistala tölvu) rakin til manns á höfuðborgarsvæðinu.

Í framhaldinu var Íslendingurinn handtekinn og yfirheyrður og hjá honum gerð húsleit. Hald var lagt á tölvubúnað en í honum fundust gögn um þátttöku mannsins í spjalli á Netinu þar sem umræðuefnið var barnaníð.

Íslendingurinn, sem notaðist ávallt við sama gælunafn þegar hann tók þátt í spjalli af þessu tagi, viðurkenndi aðild sína að málinu. Maðurinn, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu hérlendis og fékk átta mánaða fangelsisdóm árið 2006 fyrir vörslu á myndefni sem sýndi börn misnotuð kynferðislega, neitaði því hinsvegar að hafa undir höndum efni sem sýndi kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

Engu að síður fundust í tölvugögnum hans fimm hreyfiskeið sem öll sýndu kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert