Átta nafngreindir lögmenn hafa sent fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem þeir gera grein fyrir þeirri afstöðu sinni, að greiða atkvæði með lögum um Icesave-samningana í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl nk.
„Væru íslensk rök og sjónarmið hin einu réttu eða viðurkenndu í þessari deilu þyrftum við ekki að hafa miklar áhyggjur. Því miður er svo ekki. Við höfum engan rétt til þess að leika okkur að efnahagslegri framtíð barna okkar með því að halda áfram að þykjast ósigrandi og geta boðið hvaða aðstæðum sem er byrginn. Sá hugsunarháttur hefur þegar kallað yfir okkur eitt hrun og við megum ekki við öðru," segir í yfirlýsingunni.
Undir hana skrifa hæstaréttarlögmennirnir Garðar Garðarsson, Gestur Jónsson, Guðrún Björg Birgisdóttir, Gunnar Jónsson, Jakob R. Möller, Lára V. Júlíusdóttir, Ragnar H. Hall og Sigurmar K. Albertsson.