Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að takist ekki að auka umsvif í atvinnulífinu verði erfitt að koma saman kjarasamningum og miklir erfiðleikar verði hjá stjórnvöldum í ríkisfjármálum. Atvinnumál voru rædd á fundi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins með stjórnvöldum í morgun.
Á fundinum voru, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, menntamálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, innanríkisráðherra og velferðarráðherra.
Gylfi sagði að þetta hefði verið ágæt yfirferð yfir málið í heild sinni. Um suma hluti væru menn sammála eða ætti bara eftir að útfæra betur. Menn væru hins vegar ekki búnir að ná saman um alla hluti og ekki væri búið að vinna mikið í öðrum hlutum eins og jöfnun lífeyrisréttinda.
Gylfi sagði að ítarlega hefði verið fjallað um atvinnu- og efnahagsmál, menntamál og virkar aðgerðir gagnvart þeim sem eru án vinnu. Hann sagðist treysta því að farsæl lausn fáist varðandi Starfsendurhæfingarsjóð sem ASÍ hefur lagt mikla áherslu á.
Gylfi sagði að talsvert hefði verið rætt um möguleika stjórnvalda með að koma með innspýtingu inn í atvinnulífið t.d. í vegamálum. Það væri ljóst að mikil andstaða væri víða við að lögð yrðu veggjöld á vegi út frá höfuðborginni til að fjármagna breikkun Suðurlands- og Vesturlandsvegar. „Ef það tekst ekki að finna farsæla lausn í þessum málum þá óttast ég að það verði ekkert úr þessum verkefnum. Við höfum bent á hægt væri að fara í Sundabraut, en það þýðir að fólk getur valið um að fara hana eða fara um Mosfellsbæ. Við leggjum því áherslu á að reynt verði að finna önnur verkefni sem skapi vinnu. Við viljum ekki skilyrða þetta við tiltekin verkefni.“
Á fundinum var rætt um verkefni í iðnaði og orkugeira. Gylfi sagðist hafa lagt áherslu á að þau verkefni sem forsætisráðherra nefndi í ræðu á Alþingi í gær og önnur verkefni yrðu metin með tilliti til hagvaxtar. „Það er ljóst að það sem menn vorum með í hendi, eins og álver í Helguvík og virkjanatengd verkefni og þau verkefni í vegamálum sem hafa verið nefnd, fyrir utan það sem þegar er komið í gang, þá er verið að tala um fjárfestingu upp á 200 milljarða á næstu þremur. Það þarf því að bæta ansi miklu við ef menn ætla ekki að fara í Helguvík,“ sagði Gylfi.
Gylfi sagði mikilvægasta verkefnið væri að hér yrði hagvöxtur á næstu árum. „Ef okkur tekst ekki að auka hagvöxt þá tel ég að það verði ekki skemmtilegt verkefni fyrir ríkisstjórnina að þurfa að kynna þann niðurskurð í ríkisfjármálum sem verður þá að grípa til á þessu og næsta ári. Hagstofan er að meta framvindu efnahagsmála og við fengum mjög dökka niðurstöðu fyrir fjórða ársfjórðung og þjóðhagsspáin var ekki góð.“
Forystumenn ASÍ og SA ætla að setjast við samningaborðið eftir hádegið þar sem rætt verður um árangur fundarins við ríkisstjórnina og reynt að ná samkomulagi um hvenær verður hægt að ljúka kjarasamningum. „Viðræður um launaliðinn hafa ekki gegnið vel. Þetta tengist líka atvinnumálunum. Geta atvinnulífsins til að standa við kjarasamninga er háð umsvifum í atvinnulífinu. Seinagangur í þeim hluta viðræðnanna hefur leitt til þess að við fáum ekki þau svör um launaliðinn sem við höfum vænst.“
Gylfi sagði viðræður um launaliðinn tengjast hugmyndum um lækkun tryggingagjalds, en hann sagðist vonast eftir að gjaldið yrði lækkað.