Tillögu um málssókn vísað frá

Frá ársfundi Lífeyrissjóðs verslunarmanna í kvöld.
Frá ársfundi Lífeyrissjóðs verslunarmanna í kvöld. mbl.is/Golli

Ársfundi Lífeyrissjóðs verslunarmanna er lokið á Grand hótel. Þar var m.a. lögð fram tillaga frá sjóðsfélaga um málssókn á hendur stjórnendum og stjórnarmönnum sjóðsins. Þeirri tillögu var vísað frá. Um 100 manns voru á fundinum en í lífeyrissjóðnum eru um 128 þúsund manns.

Ragnar Þór Ingólfsson, sjóðsfélagi og stjórnarmaður í VR, lagði fram tvær tillögur á ársfundinum. Önnur sneri að því að leggja fyrir stjórn og framkvæmdastjóra sjóðsins að upplýsa um alla fjármálagerninga sem gerðir hafa verið í nafni sjóðsins, að upphæð meira en 150 milljónir króna, á árunum 2004 til 2011. Var þessari tillögu Ragnars vísað til stjórnar sjóðsins. ,,Hún verður væntanlega sett þar neðst í skúffuna," sagði Ragnar Þór við mbl.is að ársfundi loknum, en þetta er þriðji ársfundur sjóðsins sem hann leggur fram ámóta tillögur en án árangurs.

Hin tillagan snýr að málssókn sem Ragnar Þór er að undirbúa fyrir dómstólum, þar sem leitast verður við að fá skorið úr um persónulega ábyrgð einstakra stjórnarmanna og stjórnenda lífeyrissjóðsins á gjaldmiðlasamningum og lánveitingum árin 2004-2011. Vildi Ragnar að ársfundurinn samþykkti að kosta málssóknina. Var þessar tillögu vísað fram, m.a. á þeim rökum að ársfundur hefði ekki heimild til að ráðstafa fjármunum sjóðsins. Telur Ragnar þær forsendur vafasamar, ekkert slíkt standi í samþykktum lífeyrissjóðsins.

Undirbýr áfram málssókn

Ragnar Þór segist ætla að halda áfram með undirbúning málssóknar, þó að hann þurfi að fara aðrar leiðir. Stjórnendur sjóðsins hafi greinilega engan áhuga á að láta opna bækur sjóðsins.

„Enn og aftur eru stjórnendur sjóðsins að beita sér harkalega gegn því að birta upplýsingar um fjárfestingar sjóðsins í fyrirtækjum, eins og með gjaldmiðlasamninga, sem ég hef heimildir fyrir að fóru ekki fyrir stjórn, sem er klárt brot á samþykktum sjóðsins. Það var búið að bókfæra  yfir 20 milljarða tap útaf gjaldmiðlasamningunum. Það er þeirra útgáfa á tapinu en þeir enda líklega fyrir dómstólum. Skilanefndir bankanna hafa hafnað tilboði lífeyrissjóðanna og þetta er bara Lífeyrissjóður verslunarmanna," segir Ragnar Þór.

Auk venjubundinna aðalfundarstarfa var á ársfundinum tilkynnt um varamann Ragnars Önundarsonar í stjórn lífeyrissjóðsins. Í hans stað kemur Óskar Kristjánsson.

Ragnar Þór Ingólfsson.
Ragnar Þór Ingólfsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert