Á fundi borgarstjórnar í gær var, að ósk minnihlutans, rædd skýrsla starfshóps sem vann tillögur um sameiningu skóla í borginni. Þá lögðu Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn til að tillögur meirihlutans í borgarstjórn um miklar breytingar á skólakerfinu yrðu dregnar til baka og hafið yrði raunverulegt samráð við borgarbúa og starfsfólk um hvernig best mætti standa að verkefninu. Lagt var til að þær 14,7 milljónir króna sem ættu að sparast samkvæmt skýrslunni, yrðu teknar af liðnum „ófyrirséð“. Tillagan var felld.
Sóley Tómasdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, fordæmdi vinnubrögð meirihlutans og þvertók fyrir að það væri sameiginlegt verkefni borgarstjórnar að láta enda ná saman þar sem minnihlutinn hefði ekki fengið að koma að því að skilgreina þá valkosti sem boðið væri upp á. Sóley sagði alls konar galnar hugmyndir hafa komið fram og sumar þeirra hefðu jafnvel verið samþykktar og framkvæmdar. Vinnubrögð meirihlutans við undirbúning, framlagningu og kynningu á verkefninu, væru eitt það galnasta sem hún hefði orðið vitni að, hér ætti að ganga allt of langt á allt of stuttum tíma.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, svaraði því til að nauðsynlegt væri að hagræða, það væri veruleikinn sem meirihlutinn stæði frammi fyrir og ekki væri hægt að víkja sér undan honum. Það væri ekki gert með því að fresta hlutum, með því að tala um eitthvað annað eða með því að gera það að umtalsefni hvernig staðið væri að boðun á fundi. Meirihlutinn væri að gera sitt besta.
Eva Einarsdóttir, borgarfulltrúi Besta flokksins í Menntaráði, benti á að í þessu árferði væri nauðsynlegt að skera niður og hagræða. Eftir vangaveltur hefði verið valin sú leið að ráðast í breytingar á yfirstjórnun leik- og grunnskóla, frekar en að líta til hagræðingar hjá almennu starfsfólki skólanna, sem mætti síst við kjaraskerðingu á þessum tímum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði meirihlutann í borginni kjarklausan, það væri hugleysi að tala ekki við fólk, að fara ekki inn í allar skólastofnanir, leikskóla, frístundaheimili og öll hverfi og eiga opnar viðræður við fólk um hvernig best verði staðið að leik- og grunnskólunum. Það væri kjarkleysi.