Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins gengu ekki sérlega bjartsýnir af fundi með ráðherrum í gær, skv. heimildum Morgunblaðsins. Fátt var um skýr svör varðandi stærstu verkefnin sem ASÍ og SA telja algera forsendu þess að hægt verði að ganga frá kjarasamningum til þriggja ára.
Í umfjöllun í Morgunblaðinu í dag segir, að þetta séu fjárfestingar í atvinnulífinu, framkvæmdir til að auka atvinnu og efnahagsaðgerðir sem tryggi kaupmátt launa. Reyna á til þrautar að ná samkomulagi fram á helgina og útslitastundin er talin renna upp strax upp úr næstu helgi. Þá ráðist hvort samkomulag næst eða kjaraviðræðurnar dragast fram á vorið.
ASÍ vill fjárfestingar í stórframkvæmdum fyrir a.m.k. 200 milljarða á næstu þremur árum en eingöngu eru í pípunum framkvæmdir fyrir sem svarar 20-30 milljörðum. Ljóst er að tvöföldun Vesturlands- og Suðurlandsvegar verður ekki gerð í einkaframkvæmd. Framlög til nýframkvæmda í vegagerð hafa verið skorin niður í 6 milljarða og því óttast forystumenn á vinnumarkaði að fé til þessara framkvæmda verði tekið af takmörkuðu vegafé. Áform um Vaðlaheiðargöng skipti ekki miklu í þessu samhengi því ekki verði til mörg atvinnutækifæri við borun ganganna. Ákveðið er að skoða möguleika á að ráðast í einn áfanga Sundabrautar.