Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að auka þurfi fjárfestingar á Íslandi úr 13% af landsframleiðslu í 18-20%. Þetta þýði að fjárfestingar þurfi fara úr 200 milljörðum í 275 milljarða á tveimur árum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á
Alþingi í dag að fjárfesting á Íslandi væri um 150 milljörðum minni en
hún ætti að vera miðað við stöðugleikasáttamálann sem gerður árið 2009
og ríkisstjórnin stóð að. Hann sagði að ríkisstjórninni hefði mistekist
að laða fram fjárfestingar í atvinnulífinu. Hún hefði með skattastefnu
sinni og með því að skapa óvissu í grunnatvinnugreinar eins og
sjávarútveg og orkuiðnað stuðlað að minni fjárfestingu. Fyrirtæki í
sjávarútvegi treystu sér ekki til að ráðast í fjárfestingar vegna
óvissu um framtíð greinarinnar.
Jóhanna sagðist deila áhyggjum manna af því að hagvöxtur væri hér of lítill og fjárfesting væri of lítil. Fjárfestingar á síðustu tveimur árum hefðu verið um 13% af landsframleiðslu, en við þyrftum á næstu tveimur árum að ná henni upp í 18-20%. Þetta væri erfitt verkefni en alls ekki útilokað að það tækist. Jóhanna sagði hins vegar ósanngjarnt að miða fjárfestingar við það sem var í gangi fyrir hrun. Þá hefðu fyrirtæki ráðist í bólufjárfestingar sem ekki hefði verið grundvöllur fyrir.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar harðlega. Hér væri pólitísk óvissa, skattar væru hækkaðir, stefna í grunnatvinnuvegunum væri í óvissu, hótað væri þjóðnýtingu í orkuiðnaði og ráðherrar færu á svig við lög við að reyna að ná fram stefnu sinni. Allt dragi þetta úr líkum á að fyrirtæki væru tilbúin til að ráðast í fjárfestingar.
Sigmundur
Davíð gagnrýndi sérstaklega yfirlýsingar efnahags- og viðskiptaráðherra
sem hefði lýst íslensku efnahagslífi í samtölum við erlenda fjölmiðla
með þeim hætti að hér yrðu áfram gjaldeyrishöft og krónan væri ónýtur
gjaldmiðill. Á sama tíma segði fjármálaráðherra að krónan verði hér um ókomin ár.
Jóhanna sagði nær fyrir Sigmund Davíð að lýsa stefnu sinni í efnahagsmálum frekar en að bölsótast út í ríkisstjórnina. Hún spurði hver væri stefna Framsóknarflokksins varðandi afnám gjaldeyrishafta, upptöku evru, aðild að Evrópusambandinu og s.frv. Stjórnarandstaðan bæri líka ábyrgð og ætti að lýsa stefnu sinni ekki síður en ríkisstjórnin.