Höfum brugðist íbúum Líbíu

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Ómar Óskarsson

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði á Alþingi í dag að hann væri þeirrar skoðunar að alþjóðasamfélagið hefði brugðist íbúum Líbíu. Hann sagðist styðja aðgerðir alþjóðasamfélagsins gegn stjórn Gaddafis.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, hóf umræðuna á Alþingi. Hann gagnrýndi framgöngu alþjóðasamfélagsins og sérstaklega ráðaleysi leiðtoga Evrópusambandsins gagnvart Líbíu. Þeir gætu ekki tekið af skarið um aðgerðir gegn stjórn Gaddafi. Hann benti á að 85% af olíu frá Líbíu færi til Evrópu og 22% af allri olíu sem Ítalía notaði kæmi frá Líbíu. Hann spurði hvort þetta hefði áhrif á afstöðu leiðtoga þess þegar Gaddafi réðist gegn íbúum landsins.

Össur sagðist vera þeirrar skoðunar að alþjóðasamfélagið hefði brugðist íbúum Líbíu. Hann sagðist hafa verið í hópi þeirra sem hefði viljað ganga lengra í aðgerðum gegn stjórnvöldum í Líbíu. Það sorglega við þetta mál væri að það hefði verið tækifæri til þess að koma uppreisnarmönnum til aðstoðar. Her Líbíu væri illa vopnaður og styddist við gömul vopn.

Össur sagði að sá aðili sem helst gæti beitt sér í Líbíu væri Nató, en leiðtogar þess hefðu sett fram þrjú skilyrði fyrir aðstoð. Að þörfin væri brýn, en um það væri ekki deilt. Í öðru lagi að lögmætar aðgerðir byggju að baki, en það þýddi að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna yrðu að standa að baki aðgerðum. Í þriðja lagi hefði Nató sett það skilyrði að arabaríkin styddu aðgerðir. Össur sagði að það gerðu þau, m.a. flugbann.

Össur sagði að forseti Bandaríkjanna styddi flugbann og hugsanlegar aðgerðir á jörðu niðri og hann væri sömu skoðunar. Íslensk stjórnvöld hefðu stutt aðgerðir gegn stjórnvöldum í Líbíu og átt frumkvæði að tillögum í þá veru.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýst samstöðu með íbúum í Líbíu. Hann sagði að það vekti athygli sína að utanríkisráðherra styddi aðgerðir í Líbíu sem gengju út á að koma harðstjóra frá völdum, en hann hefði ekki stutt sambærilegar aðgerðir í Írak sem gengu út á að koma harðstjóra frá völdum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert