Orðlaus yfir Vatnajökli

Riaan Manser er hann lauk við hringróður sinn um Madagaskar.
Riaan Manser er hann lauk við hringróður sinn um Madagaskar. mbl.is

Einn frægasti ævintýramaður Afríku, Riaan Manser, kom til landsins í dag en hann hyggst, ásamt félaga sínum Dan Skinstad, róa tveggja manna kajak í kringum Ísland næstu mánuðina. Aldrei áður hefur verið gerð tilraun til hringróðurs um Ísland á þessum árstíma, þegar veður eru válynd og sjórinn jökulkaldur.

„Ég horfi út um gluggann og það er snjór yfir öllu, þetta er svo fallegt. Þegar við flugum yfir landið og sáum stóra jökulinn [Vatnajökul] þá urðum við orðlausir og brostum allan hringinn,“ sagði Manser með ánægjutón í röddu í samtali við mbl.is í kvöld. 

Áætla að læra íslensku

Manser öðlaðist töluverða frægð þegar hann varð fyrstur til að hjóla hringinn í kringum Afríku en það ferðalag tók hann tvö ár. Manser varð einnig fyrstur til að róa einsamall á kajak í kringum Madagaskar, fjórðu stærstu eyju heims, og tók róðurinn um ellefu mánuði.

Vonir standa til að þeir félagar geti lagt í hann eftir fjóra eða fimm daga en ævintýrið hefst á Húsavík. Hugmyndina að hringferðinni fékk Manser eftir að hafa dvalið hér í tvær vikur í fyrrasumar en þá kolféll hann fyrir landinu og vildi kynnast því betur. Aðspurður hvað ferðin eigi eftir að taka langan tíma segist Manser ekki vera kominn til þess að slá nein hraðamet heldur vilja þeir upplifa landið. Ferðafélagi hans, Skinstad, er með milda hreyfilömum og er hreyfigeta hans skert og ætluðu þeir félagar sér raunar fjóra mánuði til ferðarinnar. „Við róum fáa kílómetra á dag til að byrja með, svona þegar við erum að læra á aðstæður. Svo þurfum við að læra íslensku fyrsta mánuðinn.“ 

Manser segist líka kuldinn vel en tvíeykið leggur mikla áherslu á að vera með hlý og góð föt meðferðis. Þá eru þeir með einkar góða svefnpoka í farteskinu, sem göngugarpar nota þegar þeir klífa Everest. „Við munum slá upp tjaldbúðum ef við finnum ekki vinveitt fólk sem er reiðbúið að hýsa okkur.“

Ferðin fest á filmu

Undirbúningurinn fyrir Íslandsferðina hefur tekið talsverðan tíma en félagarnir fara í hringferðina fyrst og fremst til að safna fé fyrir góðgerðarsjóð Mansers, „No food for lazy man“, sem safnar fé svo hægt sé að kaupa búnað til íþróttaiðukunar fyrir börn, en þetta málefni er Manser afar hugleikið. Til að vekja athygli á ferðinni var kynningarherferð hrundið af stað sem fólst m.a. í því að Manser hélt til í frystigámi í átta daga og var gámurinn fluttur um Suður-Afríku á flutningabíl. 

Manser og Skinstad verða með fylgdarbát eða -báta og verður gerð heimildarmynd um ferðina. Fylgdarliðið hefur hins vegar fengið ströng fyrirmæli um að aðstoða þá ekki á nokkurn hátt – nema kannski ef þeim er bráður bani búinn. „Við höfum undirbúið okkur í nokkra mánuði og nú erum við komnir til Íslands og tími spjallsins er liðinn, nú kýlum við á þetta. Við viljum gera eitthvað stórkostlegt og sýna það heiminum.“

Riaan Manser hefur komið víða við, hér er hann á …
Riaan Manser hefur komið víða við, hér er hann á leið sinni til Dakar í Senegal. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert