Bæjarsjóður greiði málskostað í meiðyrðamáli

Kópavogur.
Kópavogur. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarstjórn Kópavogs mun á þriðjudag greiða atkvæði um tillögu um að bæjarsjóður greiði málskostnað þriggja bæjarfulltrúa í meiðyrðamáli sem forsvarsmenn fyrirtækisins Frjálsrar miðlunar höfðuðu á hendur þeim enda sé sá kostnaður sannanlega umfram dæmdan málskostnað.

Um er að ræða bæjarfulltrúana Guðríði Arnardóttir, Hafstein Karlsson og Ólaf Þ. Gunnarsson. Forsvarsmenn Frjálsrar miðlunar höfðuðu meiðyrðamál gegn þeim eftir grein sem þau skrifuðu um tengsl fyrirtækisins við bæinn. Bæjarfulltrúarnir þrír voru þá í minnihluta.

Héraðsdómur sýknaði bæjarfulltrúana í nóvember en dómnum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. 

Samkvæmt tillögunni, sem liggur fyrir bæjarstjórn, er það sett sem skilyrði að viðkomandi bæjarfulltrúar undirriti samkomulag við Kópavogsbæ þess efnis að þeir endurgreiði féð verði niðurstaða Hæstaréttar sú að þeir hafi brotið gegn ákvæðum hegningarlaga.

Fram kemur í bréfi bæjarritara til bæjarráðs Kópavogs, að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi komist að þeirri niðurstöðu, að bæjarfulltrúarnir hafi skrifað blaðagreinina vegna starfa sinna og eigi því ekki rétt á málskostnaði úr heimatryggingu. Tryggingafélag Kópavogs komst einnig að þeirri niðurstöðu að vátryggingar bæjarins nái ekki yfir þetta mál.

Þá liggur fyrir álit lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur að sterk rök mæli með greiðsluþátttöku bæjarins þótt frekar hæpið sé að tala um beina skyldu í því efni. 

Einnig var leitað til Lagastofnunar Háskóla Íslands, sem sagði að sveitarfélögum væri almennt ekki skylt að greiða kostnað, sem félli á kjörna fulltrúa vegna meiðyrðamála, sem höfðuð væru gegn þeim persónulega vegna ummæla sem þeir létu falla í opinberri umræðu um sem snerti málefni sveitarfélagsins.

Ætla mætti, að dómstólar myndu játa þeim slíka heimild ef á reyndi. Hins vegar myndi beiting slíkrar heimildar skapa örðug álitamál í ljósi jafnræðisreglna og skapa fordæmi sem leitt gætu til þess að játa yrði öðrum en kjörnum fulltrúum sambærilega aðstoð. 

Á fundi bæjarráðs í gær, þar sem fjallað var um málið, lagði Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fram bókun þar sem segir að tillagan feli í sér að þremenningarnir fái vaxtalaust lán hjá bæjarsjóði Kópavogs. Kópavogsbær stundi ekki bankastarfsemi og ef fólki vanti fjármuni til að fjármagna rekstur einkamála sé eðlilegt að það leiti til bankakerfisins.  

Fundargerð bæjarráðs Kópavogs frá í gær

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert