Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, vísar á bug fullyrðingum opinberra starfsmanna um að Alþýðusambandið hafi uppi hugmyndir um skerðingu á lífeyrisréttindum réttindum opinbera starfsmanna.
Gylfi segir í yfirlýsingu, að viðræður ASÍ við Samtök atvinnulífsins grundvallist á markmiði um að jafna lífeyrisréttindin á almenna vinnumarkaðinum gagnvart hinum opinbera í stað þess að réttindi þeirra verði færð niður að þeim réttindum sem eru á almenna vinnumarkaðinum.
Samtök atvinnulífsins hafi hins vegar farið fram á að fá upplýsingar um áform stjórnvalda varðandi lífeyriskerfi opinberra starfsmanna, m.a. í ljósi þess að hvorki ASÍ né SA hafi aðgang að þeirri umræðu.
Segir Gylfi að Alþýðusambandið hafi lagt ofuráherslu á að staðið verði við öll áunnin réttindi opinberra starfsmanna en hins vegar sé farið fram á að tryggt verði að lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verði gert sjálfbært þannig ekki verði frekari skuldaaukning í sjóðum þeirra, umfram þá 500 milljarða sem nú þegar hafi safnast upp og lenda muni á skattgreiðendum næstu árin.
Yfirlýsing Gylfa Arnbjörnssonar