Gagnrýndi forsætisráðherra fyrir afskipti

Valtýr Sigurðsson.
Valtýr Sigurðsson.

Á fundi með ákærendum í morgun gagnrýndi Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari,  Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra harðlega  fyrir afskipti af ákæruvaldinu. Þetta kom fram í fréttum Bylgjunnar.

Valtýr, sem lætur af embætti um mánaðamótin, sagði m.a. að forsætisráðherra hefði tekið virkan þátt í baráttunni gegn útrásarvíkingum og nánast ærst af fögnuði þegar fréttir berist af því að þeir hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Þá hafi sami ráðherra tjáð sig fjálglega um að það hafi verið mistök að ákæra með tilteknum hætti í níumenningamálinu svonefnda. Ætla megi, að hún hafi þar átt við pólitísk mistök en ekki fagleg.

Valtýr gagnrýndi einnig Evu Joly, sem var um tíma ráðgjafi sérstaks saksóknara. Sagði Valtýr, að yfirlýsingar sem Joly hefði sent frá sér bæru þess öll merki að um væri að ræða stjórnmálamann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert