Tvennt var flutt á slysadeild á Húsavík eftir árekstur sem varð á Þjóðvegi 1 við Ljósavatn, milli Stóru Tjarna og Kross, um fimmleytið í dag. Meiðsli fólksins eru ekki talin alvarleg.
Þrjú umferðaróhöpp urðu með skömmu millibili á Þjóðveginum að sögn lögreglunnar á Húsavík, en fjórir bílar lentu í árekstri og einn keyrði út af veginum. Tildrög slysanna voru þau að bifreið festist á veginum og ætlaði ökumaður annarrar bifreiðar að taka fram úr. Sá hafnaði á bifreið sem ók úr gagnstæðri átt. Ökumaður, sem kom að slysstað, stöðvaði bíl sinn til þess að veita aðstoð sína, en þá keyrði bifreið aftan á hann. Þegar hópur fólks hafði safnast saman á slysstað kom enn einn bíllinn á fullri ferð í áttina að fólkinu sem náði að sveigja frá og hafnaði utan vegar.
Mikil mildi þykir að enginn hafi slasast alvarlega. Ekki er vitað um tjón á bifreiðum.
Veginum var lokað á meðan lögregla og sjúkrabíll voru að athafna sig og opnaði hann ekki fyrr en um hálf áttaleytið í kvöld. Veður er mjög slæmt á svæðinu að sögn lögreglunnar á Húsavík og brýnir hún fyrir ökumönnum að vera ekki mikið á ferðinni.