Magnús Guðmundsson, 33 ára fyrrum verslunarstjóri N1 á Bíldshöfða, lést á Landspítalanum síðastliðinn þriðjudag. Magnús var og er efsti keppandinn í einstaklingskeppni Mottumars, söfnunar- og fræðsluátaks Krabbameinsfélagsins, en hann greindist með bráðahvítblæði í júní í fyrra. Mottumars var honum hjartans mál og að sögn unnustu hans, Ingibjargar Ragnarsdóttur, var hann stoltur af því að leggja sitt af mörkum.
„Hann var ákveðinn í að vera með og ætlaði að taka þetta með trompi, það var allt eða ekkert hjá honum,“ segir Ingibjörg en Magnús setti sér það markmið að ná 1 milljón króna í áheitum. „Þetta var í raun dálítið merkilegt því hann var búinn að vera í strangri lyfjameðferð og það óx ekkert hár á honum en í lok febrúar byrjaði að koma smá motta. Það var eins og merki um að hann ætti að vera með.“
Baráttan reyndist erfið en Magnús tók hverju bakslagi af æðruleysi. Hann skrásetti reynsluna á bloggi á Facebook og dró ekkert undan. „Hann var aldrei í vafa um að hann myndi klára þetta og þegar ég var hrædd tók hann fimm mínútur að snúa mér við,“ segir Ingibjörg.
Daginn eftir að Magnús skráði sig til þátttöku í Mottumars var hann lagður inn á gjörgæsludeild og fékk þar þær fréttir að hann væri á góðri leið með að ná markmiði sínu. „Ég sagði honum frá því þegar hann fór yfir 300 þúsund. Þá var hann í öndunarvél en brosti og var ótrúlega glaður.“
Áður en Magnús lést leitaði Krabbameinsfélagið til hans og spurði hvort hann væri tilbúinn að tala við fjölmiðla um árangurinn í keppninni. Magnús var spenntur fyrir því og var það ákvörðun unnustu hans og bróður að veita viðtal til að heiðra þann vilja hans.
Enn fremur var það sameiginleg ákvörðun þeirra og Krabbameinsfélagsins að hann myndi ljúka keppni og safna áheitum út mánuðinn.