Sanngirnisbæturnar ræddar

Frá fundinum í kvöld
Frá fundinum í kvöld Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samtök vistheimilabarna héldu fund í Reykjavíkurakademíunni fyrr í kvöld, til að ræða sáttaboðin sem bárust fyrrverandi vistmönnum í Breiðavík. Um 40 manns voru mættir á fundinn og mátti heyra nokkra óánægju með bréfin sem sýslumannsembættið á Siglufirði sendi út.

„Mönnum finnst ákveðinn hótunartónn í bréfinu, eins og verið sé að reyna að koma í veg fyrir að viðtakendur leiti til úrskurðarnefndar,“ segir Konráð Rangarsson, einn hinna svokölluðu Breiðavíkurdrengja, sem lengi hafa barist fyrir því að fá bætur fyrir þá illu meðferð sem þeir þoldu á vistheimilinu. Samþykki viðtakandi ekki sáttaboðið innan 30 daga er litið svo á að því sé hafnað og getur sá hinn sami kært útreikninginn til úrskurðarnefndar.

Hverjum einstaklingi verða greiddar að hámarki 6 milljónir, fyrir dvöl á einu eða fleiri vistheimilum. 

Sýslumaðurinn á Siglufirði sendi rúmlega 70 sáttaboð út í vikunni, sem ná eingöngu til þeirra er dvöldust á Breiðavík. Að sögn Ásdísar Ármannsdóttur, sýslumanns, á þó eftir að fara yfir mál þeirra sem ekki fóru í viðtöl, sem og þeirra sem látnir eru. Þá á eftir að reikna út sanngirnisbætur til handa þeim sem dvöldust á öðrum vistheimilum.

Fram kom á fundinum að sumir telja sanngirnisbæturnar full lágar en flestir voru sammála um að upphæðin væri ekki aðalatriðið.

„Mér finnst ástæða til að íhuga margt sem ég hef heyrt hér í kvöld,“ sagði Bárður R. Jónsson í máli sínu á fundinum, en hann hefur lengi verið í forsvari fyrir fyrrverandi vistmenn á Breiðavík.

„Einhverntíma verður maður að segja að það sé komið nóg, engir peningar gera fólk sátt.“

Í samtali við mbl.is sagðist Bárður þó telja að flestir muni una sáttaboðunum. „Þetta er ákveðin lúkning.“

Konráð Ragnarsson
Konráð Ragnarsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Bárður R. Jónsson
Bárður R. Jónsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert