Þarf heimild í fjárlögum

Reimar Pétursson
Reimar Pétursson

Loforð embættismanna geta ekki skuldbundið íslenska ríkið fjárhagslega. Til slíkra skuldbindinga þarf heimild í fjárlögum. Þetta sagði Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður, sem ræddi Icesave-málið, á málstofu á vegum viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.

Reimar benti á að tugir dómafordæma lægu fyrir sem sýndu að loforð ráðherra eða annarra embættismanna gætu ekki skuldbundið ríkissjóð fjárhagslega. Ef breska og hollenska ríkið hygðust sækja bætur til íslenska ríkisins vegna vanefnda í Icesave-málinu, væri enginn annar dómstóll sem kæmi til greina heldur en Héraðsdómur Reykjavíkur, sem er varnarþing íslenska ríkisins.

Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur hjá Lagastofnun, sagði íslenska ríkið skuldbundið vegna þess að íslensk stjórnvöld hefðu skrifað undir plagg 10. október 2008 þar sem því hefði verað lofað að útlagður kostnaður Breta og Hollendinga vegna greiðslu til Icesave-innistæðeigenda.

„Heldur þú að breska og hollenska ríkið sætti sig við að fá endurgreitt í íslenskum krónum,“ spurði Helgi Áss, og var nokkuð heitt í hamsi.

Reimar benti þá að að Bretar og Hollendingar hefðu einfaldlega keypt sér kröfu í krónum í þrotabú, fyrir evrur og pund, með þeirri ákvörðun sinni að greiða út Icesave-innistæður.

„Þó að íslenska þjóðin sé flekklaus erum við búin að kjósa okkur yfirvöld sem eru það ekki,“ sagði Helgi Áss, með vísan til orða Reimars, sem hafði áður sagt að íslenska þjóðin væri flekklaus í Icesave-málinu, þó að stjórnvöld séu það hugsanlega ekki. 

Uppfært 17.59. Athugasemd frá Helga Áss Grétarssyni:

Í frétt á Mbl.is, sem ber fyrirsögnina, "Þarf heimild í fjárlögum" er m.a. eftirfarandi fullyrt: "Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur hjá Lagastofnun, sagði íslenska ríkið skuldbundið vegna þess að íslensk stjórnvöld hefðu skrifað undir plagg 10.október 2008 þar sem því hefði verað lofað að útlagður kostnaður Breta og Hollendinga vegna greiðslu til Icesave-innistæðeigenda."

Þetta er rangt eftir haft. Í fyrirspurn minni til Reimars tók ég ekki afstöðu til þessa álitaefnis. Ég vísaði hins vegar í tiltekið skjal sem ritað var undir skömmu eftir hrun á milli íslenskra og hollenska stjórnvalda. Í þessu skjali, sem reyndar er dagsett 11. október 2008, kom fram sá sameiginlegur skilningur aðila íslenska tryggingarsjóðnum yrði veitt lán með ríkisábyrgð til að bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Lánið frá hollenska ríkinu til tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins átti að vera til 10 ára, með 6,7% vöxtum og þriggja ára afborgunarleysistímabili.

Í þetta skjal vísaði ég í tengslum við þá fullyrðingu Reimars Péturssonar að Íslendingar væru flekklausir í Icesave-málinu. Því er ég ekki sammála.

Þessi fréttaflutningur af fundinum er til þess fallinn að varpa rýrð á það sem ég var að segja. Mér þykir það miður. Ástæða er til að leiðrétta þetta.

Kv.

Helgi Áss"

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka