Skipt um fulltrúa ríkis í bankaráði

Það er niðurstaða stjórnar Bankasýslunnar, að rétt sé að endurnýja ekki umboð stjórnarmanns stofnunarinnar í Arion banka á aðalfundi bankans sem haldinn verður í þessari viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bankasýslu ríkisins. Kristján Jóhannsson er fulltrúi Bankasýslunnar í stjórn Arion banka en ríkið á 13% hlut í bankanum. Fram kom nýlega, að Kristján greiddi atkvæði með tillögu um að laun bankastjóra bankans yrðu hækkuð. Ríkisstjórnin hefur lýst mikilli óánægju með þetta og farið fram á það við bankastjóra Arion banka og Íslandsbanka að launahækkunin gangi til baka.

Stjórn Bankasýslunnar segir í tilkynningunni, að með tilliti til eðlis málsins  hefði verið rétt af fulltrúa stofnunarinnar í Arion banka að taka ekki þátt í afgreiðslu ákvörðunar um launahækkun bankastjóra bankans, bæði í ljósi viðkvæmrar stöðu bankanna við endurreisn bankakerfisins, nú þegar stefnt sé að því að byggja upp traust og trúverðugleika fjármálafyrirtækja, og viðleitni stjórnvalda til að hafa hemil á launahækkunum  hærri launa.

„Í ljósi ofangreinds er það niðurstaða stjórnar að rétt sé að endurnýja ekki umboð stjórnarmanns BR í Arion banka á aðalfundi bankans sem haldinn verður í þessari viku," segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert