Fimmtungi fleiri slösuðust alvarlega

Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn að störfum. Myndin er úr safni.
Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn að störfum. Myndin er úr safni. mbl.is/Ernir

Átta létust í umferðinni á síðasta ári og að sögn Umferðarstofu hefur fjöldi látinna ekki verið lægri síðan 1968. Hins vegar hafi fjöldi alvarlegra slysa og alvarlegra slasaðra aukist mikið. Árið 2010 sé því með því versta sem verið hafi í langan tíma hvað það varðar.

Umferðarstofa hefur lokið skráningu umferðarslysa ársins 2010. Byggir skráningin á lögregluskýrslum sem fengnar eru úr gagnagrunni ríkislögreglustjóra, að því er fram kemur fram í fréttabréfi Umferðarstofu, sem nefnist Tillit.

Fram kemur að fjöldi látinna í umferðinni árið 2010 hafi verið átta en það hafi ekki færri látið lífið í umferðinni frá árinu 1968. Í samanburði við hin Norðurlöndin sé fjöldi látinna í umferðinni árið 2010 lægstur hér á landi. Þar sem Norðurlöndin hafi á undanförnum árum náð hvað bestum árangri í umferðaröryggismálum á heimsvísu megi ætla að fjöldi látinna miðað við höfðatölu hafi verið lægstur í heiminum hér á landi árið 2010.

Fjöldi alvarlegra slysa og alvarlega slasaðra aukist hinsvegar mikið og sé árið 2010 með því versta sem hafi verið í langan tíma. Alvarlega slösuðum fjölgi úr 170 í 205 eða um 21% og hafi alvarlega slasaðir ekki verið jafnmargir síðan árið 1999. Lítið slösuðum fækki hinsvegar úr 1.112 í 1.056 (5%) og heildarfjöldi slysa með meiðslum og heildarfjöldi slasaðra og látinna lækki örlítið milli ára. Slysunum fækki úr 893 í 882 og fjöldi slasaðra lækkar úr 1299 í 1269.


Fleiri slys meðal gangandi og hjólandi

„Algengasta tegund alvarlegra slysa og banaslysa er "Ekið á fótgangandi" og hefur þessi tegund slysa aldrei fyrr verið algengasta tegundin. Fjöldi alvarlega slasaðra hjólreiðamanna rúmlega tvöfaldast milli áranna 2009 og 2010 en sá fjöldi fer úr 10 í 21.  Samtals voru alvarleg slys þar sem ekið var á gangandi eða hjólandi einstakling 49 talsins. Það eru fleiri slys en heildarfjöldi árekstra (hliðarákeyrsla, framanákeyrsla og aftanákeyrsla) og einnig fleiri en heildarfjöldi útafaksturs (útafakstur á beinum vegi og útafakstur í beygju),“ segir í fréttabréfinu.

Vefur Umferðarstofu.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka