Halda áfram í ríkisstjórninni

Þingflokkur VG á fundi.
Þingflokkur VG á fundi. mbl.is/Árni Sæberg

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ætlar að halda ótrauður áfram þátttöku í ríkisstjórn þó að tveir þingmenn flokksins hafi sagt sig úr þingflokknum.

Í yfirlýsingu frá þingflokki VG er lýst vonbrigðum með að þingmennirnir Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafi ákveðið að segja skilið við þingflokkinn.  Þingflokkurinn þakkar þeim samstarfið og óskar þeim velfarnaðar.  Í tengslum við ákvörðun þeirra hefur þingflokkurinn gengið frá breytingum á skipan í þingnefndir.
 
„Það er von þingmanna Vinstri grænna að þrátt fyrir ákvörðun Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur um að yfirgefa þingflokkinn styðji þau áfram ríkisstjórnina og uppbyggingu landsins úr rústum nýfrjálshyggju- og einkavæðingarstefnunnar.

Þingflokkurinn mun halda starfi sínu ótrauður áfram og þátttöku í ríkisstjórninni sem hefur náð miklum árangri nú þegar við erfiðar aðstæður við að endurreisa efnahag landsins. Þingmenn VG munu hér eftir sem hingað til vinna í anda stefnu flokksins, samþykkta landsfunda og flokksráðsfunda,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert