Kynjuð hagstjórn orðin tóm

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Ernir Eyjólfsson

Stjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir vanþóknun sinni á aðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem þær segja hafa bitnað illa á stöðu kvenna í íslensku samfélagi, í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla í dag.

Þar kemur fram að niðurskurður í ríkisrekstri undanfarin tvö ár hafi komið margfalt harðar niður á konum en körlum. 470, eða 87%, af 540 stöðugildum sem skorin hafa verið niður voru skipuð konum en 70 stöðugildi, eða 13%, voru skipuð körlum. „Sú þjónusta sem heilbrigðisstofnanir og aðrar opinberar stofnanir hafa dregið úr og jafnvel hætt að veita með uppsögnum þessara 470 kvenna og öðrum aðhaldsaðgerðum eru nú störf sem mörg hafa færst inn á heimilin í landinu. Þar vinna oftar en ekki konur þau nú ólaunuð, því þarfir barna, aldraðra og sjúkra minnka ekki hvað þá hverfa þó þurfi að spara.“

Stjórnir segir það áhyggjuefni að þær aðgerðir sem forsætisráðherra boðaði á dögunum virðast að mestu lúta að aukningu á störfum sem karlmenn skipa í meirihluta. „Við afgreiðslu fjárlaga og við önnur tækifæri varaði þingflokkur Framsóknar ásamt öðrum aðilum eins og Jafnréttisstofu við því að gætt yrði að hagsmunum beggja kynja við yfirvofandi niðurskurð. Kynjuð hagstjórn eins og núverandi ríkisstjórn, hin svokallaða velferðar- og jafnréttisstjórn, boðaði er greinilega einungis orðin tóm, því ekki verða aðgerðir þeirra til þess að rétta hlut kvenna þó síður sé,“ segir í ályktuninni.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert