Hlutdeild sjónvarpsefnis frá öðrum Norðurlöndum hefur verið á bilinu 5,6-7,5% undanfarin fimm ár en á sama tíma hefur hlutdeild bandarísks sjónvarpsefnis verið 26,1-30,4%, að því er fram kemur í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur á Alþingi.
Mjög misjafnt er hversu mikið er upprunnið í öðrum löndum eða frá 3,7% upp í 23,1%. Samkvæmt þjónustusamningi ráðuneytisins og RÚV á norrænt efni að vera a.m.k. 5%.
Siv spurði um meðaláhorf á tiltekna norræna og bandaríska þætti. Þrír vinsælustu þættirnir voru norrænir, þ.e. Himinblámi (24,9%), Glæpurinn II (21,4%) og Hvaleyjar (20,8%). Þrír vinsælustu bandarísku þættirnir voru Sporlaust (20,7%), Aðþrengdar eiginkonur (19,6%) og Bráðavaktin (18,2%).