Veður hefur sett strik í veiðar á vertíðinni, en viðmælendur Morgunblaðsins segja þó allir að þegar veður leyfi sé mokfiskirí allt landið um kring.
„Þetta hefur gengið ljómandi vel og við höfum verið í gríðarlega miklu fiskiríi,“ segir Pétur Pétursson, skipstjóri og útgerðarmaður á Bárði SH, sem rær frá Ólafsvík.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Pétur óvenjumikið af fiski í sjónum núna og að hann sé mjög fallegur. „Þetta er blandaður fiskur, af öllum stærðum, en mikið af stórum fiski. Þeir segja mér í fiskvinnslunni að hann sé mjög vel haldinn og lifrarmikill.“ Pétur segir að hann sé langt kominn með heimildir sínar og sama eigi við um aðrar útgerðir á svæðinu.Ragnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja segir að þegar menn komist á sjó veiðist mjög vel, en vegna veðurs hafi markaðurinn selt töluvert minna það sem af er þessu ári en á sama tíma í fyrra. „Það munar líklega hátt í tvö þúsund tonnum,“ segir hann.