Svandís Svavarsdóttir segir að líklega verði úrsögn Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur úr þingflokki Vinstri grænna rædd á þingflokksfundi síðar í dag. Þingflokksfundur stóð yfir fram að hádegi, en mál Atla og Lilju var ekki rætt þar.
Þingmenn Vinstri grænna vildu lítið sem ekkert tjá sig um málið eftir fundinn. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, neituðu alfarið að tjá sig þegar þeir gengu saman af fundinum. Báðir hafa þeir gjarnan verið á öndverðu meiði við stefnu ríkisstjórnarinnar í sumum af helstu málum hennar, líkt og Atli og Lilja.
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar, segir að áhrif þessa á þingflokkinn og ríkisstjórnina eigi eftir að koma í ljós. „Ég þakka þeim fyrir gott samstarf og vegni þeim vel. Þetta var leiðinlegt,“ sagði Katrín. Hún kvaðst fyrst hafa fengið að vita af málinu þegar hún mætti á fund klukkan ellefu.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði að það væri eftirsjá af Atla og Lilju úr þingflokki Vinstri grænna. „Þetta er prýðis gott fólk og góðir samherjar um okkar stefnumál,“ sagði Ögmundur.
Árni Þór Sigurðsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, gaf ekki kost á viðtali að fundi loknum.