Atli: Yfirlýsingar Össurar kornið sem fyllti mælinn

Atli Gíslason.
Atli Gíslason. mbl.is/Ómar

Atli Gíslason segir að niðurstaða rýnivinnu Evrópusambandsins vegna aðildarumsóknar Íslands og pólitískar yfirlýsingar Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra í tengslum við umsóknina hafi verið kornið sem hafi fyllt mælinn, og leitt til þess að hann sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna.

„Pólitískar yfirlýsingar utanríkisráðherra útvötnuðu þingsályktunina. Þar var talað um að tryggja grundvallarhagsmuni Íslands. Nú er er talað um tilmæli, sjónarhorn og viðmið. Við samþykktum, í okkar flokki, að sækja ekki um aðlögunarstyrki. Það hefur verið gert,“ sagði Atli sem var gestur í Kastljósþætti kvöldsins ásamt Lilju Móesdóttur.

Hann segir að umsóknin hafi verið þvert á samþykki flokksráðs VG frá því í haust.

Þá segir Atli að sannleikanum sé haldið frá þjóðinni varðandi það að viðræðurnar við ESB séu ekki aðlögunarviðræður. Atli segir að það séu þær svo sannarlega.

„Það er verið að gefa misvísandi upplýsingar til þjóðarinnar. Þetta er ekki lýðræðislegt, þetta er ekki uppi á borðinu. Mér finnst stundum að við séum að fara hálfpartinn bakdyramegin inn þarna. Það er gengið miklu lengra í umsókninni hjá íslenskum stjórnvöldum heldur en umboðið er í þingályktuninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert