Enn á ný er Vinstrihreyfingin – grænt framboð, annar tveggja stjórnarflokkanna, komin í kastljós fjölmiðlanna eftir tiltölulega rólega tíð í tæplega tvo mánuði. Það var vitanlega úrsögn þeirra Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur úr þingflokki VG sem dró að flokknum alla athygli fjölmiðla strax í gærmorgun.
Kunnugir segja þó að þótt óánægju og átökum hafi undanfarna mánuði verið haldið fjarri hinni opinberu umræðu hafi lengi verið ljóst að hverju dró, sérstaklega hvað varðar Lilju Mósesdóttur, en úrsögn Atla hafi hins vegar komið mjög við kaunin á flokksforystu VG, ekki síst Steingrími J. Sigfússyni, formanni flokksins og fjármálaráðherra.
Aðrir segja að hjáseta þeirra tveggja við afgreiðslu fjárlaga hafi strax gefið tóninn um að þau myndu ekki sætta sig við það til langframa að starfa í þingflokki VG án þess að í nokkru væri hlustað á eða tekið tillit til sjónarmiða þeirra.
Eins og fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra Atla og Lilju frá því í gærmorgun tilgreina þau ýmsar ástæður fyrir úrsögn sinni og þeirri ákvörðun að styðja ekki lengur skilyrðislaust núverandi ríkisstjórn eða bera ábyrgð á stefnu hennar og vinnubrögðum. Þau tilgreina efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins, samstarfið við AGS, stefnuna í Icesave og Evrópusambandsmálum, aðgerðarleysi vegna Magma, aðgerðarleysi vegna skuldavanda heimilanna og það sem þau nefna foringjaræði.
Orðrétt segja þau m.a.: „Við ætlum ekki lengur að vinna í umhverfi sem tortryggir störf okkar og reynir að beisla málfrelsi okkar. Það á bæði við um forystu okkar eigin flokks og samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Við höfum ítrekað mátt sæta ómálefnalegum ásökunum í okkar garð frá formanni Samfylkingarinnar og einstökum þingmönnum þess flokks.“ Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins vissu aðeins þeir Ásmundur Einar Daðason, Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason um ákvörðun Atla og Lilju áður en þingflokksfundur VG hófst kl. 10 í gærmorgun, en þeir fengu að vita um þessa ákvörðun þingmannanna seint í fyrrakvöld. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur þessi ákvörðun þeirra Atla og Lilju átt sér alllangan aðdraganda. Þau sögðu sig úr þingflokknum í upphafi þingflokksfundar í gærmorgun og viku síðan af fundi.
Ákveðnir stjórnarandstöðuþingmenn bentu í gær á að við úrsögnina styrktist staða Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra og Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og stefna ríkisstjórnarinnar í ESB-málum veiktist að sama skapi. Nú væri þingmeirihlutinn svo naumur að formönnum stjórnarflokkanna, þeim Steingrími J. og Jóhönnu, yrði ekki lengur fært að kúga þessa ráðherra til hlýðni í hvaða máli sem er. Ástæða þess að Ásmundur Einar Daðason ákvað að sitja áfram í þingflokki VG er ekki talin vera sú að hann sé á nokkurn hátt ánægðari með störf og stefnu ríkisstjórnarinnar en þau Atli og Lilja. Hann hafi átt og eigi samleið með þeim í flestum málum.
Á það er bent að hann sé þingmaður sama kjördæmis og sjávarútvegsráðherrann, Norðvesturkjördæmis. Hann vilji styðja Jón með því að sitja áfram í þingflokknum, a.m.k. um hríð, en hann hljóti að gera kröfu um ákveðnar breytingar, ekki síst í Evrópusambandsmálum.
Því telja bæði stjórnarandstöðuþingmenn og ákveðnir stjórnarþingmenn að Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson verði, um stundarsakir að minnsta kosti, að gleyma áformum sínum um að þröngva Jóni Bjarnasyni út úr ríkisstjórn, en þau hafa látið einarða andstöðu hans við ESB-aðild fara endalaust í taugarnar á sér, eins og alþjóð veit.
Því hefur jafnvel verið fleygt að Samfylkingin vilji leita eftir stuðningi annarra á þingi til þess að styrkja þingmeirihluta stjórnarinnar. Þannig er því haldið fram að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa verið hvað hallastir undir ESB-aðild Íslands, þær Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hafi fengið hýrt auga frá ákveðnum þingmönnum Samfylkingarinnar, en viðmælendur Morgunblaðsins í gær töldu þó afar ólíklegt að þær færu að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn til þess að styrkja ríkisstjórn Samfylkingar og VG, nema þá að þær vildu reyna að framlengja pólitískt líf sitt um einhverja mánuði eða misseri.
Raunar hefur slíkt hið sama verið fullyrt um hýrt augnaráð þingmanna Samfylkingarinnar til framsóknarþingmannanna Guðmundar Steingrímssonar og Sivjar Friðleifsdóttur, sem löngum hafa verið veik fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.