Forsætisráðuneytinu er gert að afhenda saksóknara Alþingis afrit af tölvupóstsamskiptum Geirs H. Haarde á meðan hann var forsætisráðherra, en landsdómur kvað upp dóm í málinu í dag.
Þetta segir Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis. Hún tekur fram að hún eigi eftir að fá endurrit af dóminum.
Aðspurð segir hún að næstu skref sé að fá rafræn afrit af tölvupóstsamskiptum Geirs og fara yfir þau. Það sé óljóst hvað það muni taka langan tíma en Sigríður segist ekki vita hversu umfangsmikið þetta sé. „Við vinnum úr því og ef það er eitthvað sem við teljum að hafi eitthvert sönnunargildi í málinu, af þessum tölvupóstum, þá prentum við það út,“ segir Sigríður.
Á morgun mun hún krefjast þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Þjóðskjalasafn Íslands megi afhenda embættinu skýrslur sem voru teknar í vegna rannsóknarskýrslu Alþingis. Hvað það varðar telur hún líklegt að niðurstaða muni liggja fyrir helgi.
„Við stefnum á það, í það minnsta, að koma ákæru og gögnum fyrir dóminn fyrir páska,“ segir Sigríður.
Óljós ákvæði laga um landsdóm ollu því að
forsætisráðuneytið hafnaði kröfu saksóknara Alþingis um að afhenda afrit
af tölvusamskiptum Geirs. Nú liggur hins vegar fyrir dómur landsdóms.
Sigríður hefur sagt að samkvæmt lögunum bæri
henni að afla gagna um þau ákæruatriði sem er að finna í ályktun
Alþingis um að höfða beri mál gegn Geir. Tölvupóstarnir gætu varpað
ljósi á hvaða vitneskju Geir hefði haft um þá stófelldu hættu sem
íslenskt efnahagslíf stóð frammi fyrir.
Saksóknari krafðist að fá afhent öll tölvusamskipti Geirs á þeim tíma sem
hann var forsætisráðherra, þ.e. frá 15. júní 2006 til 1. febrúar 2009.
Ákæruatriðin varða hins vegar tímabilið frá febrúar til október 2008.
Sigríður sagði hins vegar fyrir landsdómi að afla yrði gagna um
aðdragandi þess að bankarnir komust í þrot, m.a. um hins svokölluðu
minikrísu árið 2006, en þá stóð bankakerfið tæpt ef marka má
rannsóknarskýrslu Alþingis.