Utanríkismálanefnd Evrópuþingsins segist í skýrslu um Ísland fagna árangri í aðildarviðræðum landsins og Evrópusambandsins þótt enn sé talsvert verk óunnið í ýmsum málum.
Eru sérstaklega nefnd Icesave-deilan, hvalveiðar og vilji Íslendinga til að vernda sjávarútveg og landbúnað.
Um er að ræða fyrstu skýrslu nefndarinnar um Ísland frá því aðildarviðræðurnar hófust á síðasta ári. Nefndin segist fagna því eitt af elstu lýðræðisríkjum álfunnar, sem hafi virkt markaðshagkerfi, kunni að ganga í Evrópusambandið. Hins vegar séu nokkur viðkvæm mál óleyst.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Evrópuþinginu að Rúmeninn Cristian Dan Preda hafi skrifað skýrsluna sem var samþykkt með 48 atkvæðum gegn 2 en einn greiddi ekki atkvæði.
Fram kemur, að nefndin hvetur Ísland og Evrópusambandið til ná niðurstöðu í viðræðum um makrílkvóta. Þá leggi þingmenn áherslu á að Ísland þurfi að laga fiskveiðistjórnunarlög sín að reglum Evrópusambandsins um innri markaðinn. Ísland hafi þegar lýst þeirri almennu afstöðu, að það vilji hafa yfirráð yfir fiskveiðistjórnun og efnahagslögsögu sinni.
Þá segir nefndin, að alvarlegur ágreiningur sé enn um hvalveiðar og leggur áherslu á að hvalveiðibann sé hluti af regluverki Evrópusambandsins.
Þingmenn lýstu ánægju með að náðst hefði nýr Icesave-samningur milli Íslands, Bretlands og Hollands. Sögðust þeir vona að jákvæð niðurstaða yrði í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.
Haft er eftir Preda, að svo virðist sem stuðningur hafi aukist á Íslandi við að aðildarviðræðum verði haldið áfram og að meirihluti Íslendinga treysti Evrópuþinginu. Hins vegar telji utanríkismálanefndin, að auka þurfi fræðslu á Íslandi um hvað aðild að Evrópusambandinu feli í sér. Hvetja þingmennirnir íslensk stjórnvöld til að víkka út almennu umræðuna svo almenningur geti tekið upplýsta ákvörðun í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning.