Flokkurinn klofinn í Suðurkjördæmi

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason á blaðamannafundi í gær þar …
Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason á blaðamannafundi í gær þar sem þau kynntu ákvörðun sína um að segja sig úr þingflokki VG.

Atli Gíslason, þingmaður VG, sagði í morgunútvarpi Rásar 2 að flokkurinn væri klofinn í Suðurkjördæmi. Hann sagði samþykkt stjórnar kjördæmisráðs VG í kjördæminu frá í gærkvöldi ekki koma á óvart en hann muni ekki segja af sér þingmennsku á næstunni.

Atli sagðist telja, að hann nyti stuðnings meirihluta grasrótar flokksins í kjördæminu þótt stjórn kjördæmasambandsins hefði lýst þeirri afstöðu, að með úrsögn Atla úr þingflokknum hafi orðið trúnaðarbrestur þannig að Atla sé ekki lengur sætt í umboði kjósenda VG á Suðurlandi.

Atli sagði, að þegar hann kom að kjördæminu haustið 2006 hafi VG notið 4% fylgis í Suðurkjördæmi. Í kosningunum 2007 fór fylgið í 10% og í 17% í kosningunum 2009. En eftir að flokkurinn studdi umsókn um aðild að Evrópusambandinu það ár hafi flokkurinn klofnað á Suðurlandi og fjöldi trúnaðarmanna þar sagt sig úr flokknum.

Sagðist Atli telja að meirihlutinn í grasrót kjördæmisins styðji ákvörðun hans um úrsögn og hann hafi fengið fjölda tölvupósta og SMS skeyta þar sem stuðningi sé lýst við hann.   

Þegar Atli var spurður hvort hann ætlaði að segja af sér þingmennsku svaraði hann neitandi og sagðist áfram myndi vinna að eigin sannfæringu og fyrir þá flokksfélaga í kjördæminu sem styðji hann.  

Atli staðfesti, að þau Lilja hefðu skýrt þremur þingmönnum frá ákvörðun þeirra í trúnaði á sunnudag, þar á meðal ráðherrunum Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni. Þá hefði hann reynt að hafa samband við Steingrím J. Sigfússon, formann VG, í gærmorgun með tölvupósti og SMS. 

Í samþykkt kjördæmisráðs VG í Suðurlandi er lýst yfir vonbrigðum með að Atli  skuli ekki hafa rætt fyrirætlanir sínar við stofnanir og grasrót flokksins í kjördæminu. Atli sagði, að það hefði verið erfitt fyrir sig að fara um kjördæmið og ræða þetta mál fyrirfram. Hann hefði hins vegar sent félögum sínum í Suðurkjördæmi ýtarlegt bréf í gær og útskýrt fyrir þeim ástæður þess að hann tók þessa ákvörðun um úrsögn úr þingflokknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka