Jafnréttislög voru brotin þegar Arnar Þór Másson var skipaður í embætti skrifstofustjóra hjá skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu í fyrra, að sögn kærunefndar jafnréttismála.
Umsækjendur um starfið voru alls 41. Þar af var 21 tekinn í fyrra viðtal og fimm í seinna viðtal.
Bæði Arnar Þór og Anna Kristín Ólafsdóttir, sem kærði niðurstöðu ráðuneytisins, eru menntuð í stjórnmálafræði. Anna Kristín er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu en Arnar er með meistaragráðu í samanburðarstjórnmálum. Segir nefndin ekki neinar vísbendingar um að Arnar hafi verið hæfari til starfans. Þegar öll gögn séu skoðuð, einkum menntun og starfsreynsla, sé vart hægt að komast að annarri niðurstöðu en að Anna Kristín sé amk. jafn hæf. Hún hafi mun fjölbreyttari starfsreynslu og hentugri menntun en Arnar Þór sem hafði aldrei áður haft mannaforráð.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.