Lagastofnun undirbýr Icesave-kynningu

Hafin er vinna á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands við gerð hlutlauss kynningarefnis vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar 9. apríl næstkomandi, í samræmi við ályktun Alþingis þar að lútandi.

Innanríkisráðuneytið mun í næstu viku dreifa sérprentun Icesave-laganna, sem forseti Íslands synjaði staðfestingar, en samkvæmt ákvæðum laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þarf sérprentunin að hafa borist inn á hvert heimili landsins minnst viku fyrir kjördag.

Að mati Lagastofnunar hefði verið æskilegt að dreifa kynningarbæklingi hennar og sérprentun laganna samtímis en það reyndist ekki gerlegt vegna þess hve skammt er síðan Lagastofnun var falið verkefnið sem að henni snýr.
 
Gert er ráð fyrir að kynningarvefur Lagastofnunar verði opnaður mánudaginn 28. mars á veffanginu thjodaratkvaedi.is. Þá  er miðað við, að kynningarbæklingi Lagastofnunar verði dreift inn á hvert heimili mánudaginn 4. apríl og þriðjudaginn 5. apríl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert