BHM mun ekki taka þátt í viðræðum um framtíðarfyrirkomulag lífeyriskjara sem byggja á því að skerða þegar áunnin réttindi. Þetta segir í ályktun frá BHM, en samtökin mótmæla því að ASÍ og Samtök atvinnulífsin reyni að hlutast til um um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna.
„Umsamin lífeyriskjör opinberra starfsmanna í LSR og LSS eru hluti af heildarkjörum opinberra starfsmanna og verða ekki slitin úr því samhengi. Það að Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins vilji semja sín í milli um aukin lífeyrisréttindi veitir þeim ekki heimild til að hlutast til um kjör hópa sem ekki heyra undir þeirra samningsumboð. Það er forkastanlegt að ASÍ og SA skuli setja kröfur um kjaraskerðingu afmarkaðra hópa inn í samningskröfur sínar. Stjórn BHM mótmælir því harðlega að slíkar kröfur séu teknar til umræðu af hálfu ríkisstjórnar,“ segir í ályktun frá BHM.
Samtökin segja að það séu rangfærslur og ýkjur að kalla lífeyri opinberra starfsmanna ofurkjör og ómálefnalegt að slíta þá umræðu úr samhengi við almenn kjör Íslendinga á efri árum að almannatryggingum meðtöldum. Ríkistrygging lífeyris opinberra starfsmanna sé mjög orðum aukinn í málflutningi forystu ASÍ og SA.
„Launakjör háskólamenntaðra í opinberri þjónustu eru nú að minnsta kosti 25% lægri en á almennum markaði. Það er augljóslega mun brýnna verkefni fyrir hið opinbera að bæta kjör síns starfsfólks en að stuðla að frekari skerðingum.
Það yrði ríkinu því til skammar að ljá máls á réttindaskerðingum starfsmanna sinna og hefur BHM ásamt BSRB og KÍ krafist skriflegrar yfirlýsingar ráðamanna um að svo verði ekki.
BHM mun ekki taka þátt í viðræðum um framtíðarfyrirkomulag lífeyriskjara sem byggja á því að skerða þegar áunnin réttindi.
Ríkið þarf að gera grein fyrir því hvernig það hyggst standa við skuldbindingar hvað lífeyriskjör sjóðfélaga í B-deild LSR varðar.
Legið hefur fyrir um hríð að lögum samkvæmt þarf að hækka iðgjald í A-deild LSR en ríkið hefur lagst gegn því. BHM krefst þess að tryggingafræðileg staða A-deildar verði rétt af.
BHM er reiðubúið að ræða framtíðarfyrirkomulag lífeyrismála landsmanna og er fylgjandi því að samræmi sé milli opinbers og almenns vinnumarkaðar.
Slíkri umræðu, sem er hluti af almennum viðræðum um kjör, verður af hálfu BHM ekki blandað við úrlausn mála sem varða þegar áunnin réttindi sjóðfélaga í LSR og LSS.“