Lögin stríða gegn neytendarétti

Að mati samtakanna er hyggilegast að undirrita enga nýja samninga …
Að mati samtakanna er hyggilegast að undirrita enga nýja samninga sem festa í sessi brot gegn lántaka Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Hagsmunasamtök heimilanna vara almenning við því að undirrita nýja samninga, byggða á endurútreikningum sem varða gengisbundin lán og afturvirka vexti af þeim, í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í dag.

Samtökin segja lögin, sem endurútreikningarnir byggja á (151/2010), stríða gegn neytendarétti Evrópu, en Íslendingar hafa innleitt neytendavernd samkvæmt Evrópurétti. Í tilkynningunni segir að lögin gefi lánveitendum engar heimildir til innheimtu samkvæmt nýjum útreikninum, nema gerður sé nýr samningur við lánþegann. „Með nýjum samningi er lánið slitið frá upphaflega samningnum og engin leið að segja til um meðferð slíks samnings í kjölfarið. Sé ekki settur fyrirvari á sjálfan samninginn kann sá fyrirvari að vera haldlítill. Gefi lánastofnun ekki færi á að fyrirvari sé settur við undirskriftina með tilvísun í upphaflegan lánasamning, mælum við sterklega gegn undirritun samnings.“

Samtökin segjast meta það svo að hyggilegast sé að undirrita enga nýja samninga sem festa í sessi brot gegn lántaka.

Yfirlýsinguna má finna í heild sinni á vef Hagsmunasamtaka heimilanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert