Lögreglufélag Þingeyinga telur að frekari niðurskurður til löggæslumála geti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Lögreglumenn í Þingeyjarsýslum starfi mikið einir og séu því berskjaldaðir fyrir aðsteðjandi hættu.
„Lögreglan í Þingeyjarsýslum hefur yfir stórt svæði að fara. Til að setja það í samhengi mætti sem dæmi nefna að lögreglan í Reykjavík sinnti útköllum á Blönduósi eða lögreglan í Borgarnesi sinni útköllum í Vík í Mýrdal. Aukin kostnaður og skerðing á fjárheimildum hefur valdið því að akstur lögreglubifreiða hefur dregist saman sem leiðir af meiri hættu fyrir hinn almenna borgara ef bregðast þar skjótt við, bæði í dreifbýli sem og í þéttbýli," segir m.a. í ályktun félagsins.
Þar er einnig mótmælt öllum hugmyndum um að flytja Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra og sérsveitar frá ríkislögreglustjóra.