Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra kveðst vera bjartsýn á að senn muni draga til góðra tíðinda hvað varðar viðræður Landsvirkjunar og hugsanlegra orkukaupenda vegna atvinnuuppbyggingar á Norðausturlandi.
„Það bíður okkar mikið verk að undirbúa samfélagið fyrir stórfellda atvinnuuppbyggingu. Ég er gríðarlega bjartsýn á að þarna muni draga til tíðinda innan skamms,“ segir Katrín í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var fyrirspyrjandi og spurði hann Katrínu sérstaklega út í viðræður Landsvirkjunar og Alcoa í tengslum fyrirhugaða uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.
Katrín segir að Landsvirkjun eigi í viðræðum við Alcoa, en einnig við aðra aðila.
„Það er mikil eftirspurn eftir orkunni þarna á svæðinu. Og Landsvirkjun er líka með einbeittan vilja til þess að selja orkuna til atvinnuuppbyggingar inn á svæðið. Það skiptir gríðarlega miklu máli, ekki bara fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni og fyrir norðan, heldur líka fyrir þjóðarhag allan.“
Höskuldur spurði Katrínu jafnframt hvort hún væri ekki tilbúin að stuðla að því að ná þverpólitískri samstöðu á Alþingi varðandi atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi.
„Núna þegar við sjáum vonandi fyrir endann á þessu máli, hvort að við getum ekki hér á Alþingi slíðrað sverðin og allir þeir sem geta vettlingi valdið sameinast um að klára verkefnið. Við erum þar með að auka hagvöxtinn á Íslandi, minnka atvinnuleysið og koma hjólum atvinnulífsins af stað. Ég er viss um það að það er hægt að ná þessum þverpólitíska sáttmála eða samningi og landa þessu verkefni,“ sagði Höskuldur.
„Það stendur svo sannarlega ekki á mér og ég tel að ég hafi nú stigið mörg stór skref í þá átt að slíðra sverðin, hvað varðar þetta svæði og atvinnuuppbygginu þar,“ sagði Katrín þegar hún svaraði þingmanninum.