Stefna stjórnarinnar óbreytt

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra á Alþingi. mbl.is/Ernir

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að stefna ríkisstjórnarinnar sé óbreytt, þrátt fyrir brotthvarf tveggja þingmanna Vinstri grænna. „Það hefur engin breyting þar orðið á og ríkisstjórnin heldur áfram á þeim hinum sama grundvelli.“

Leiðarljós hennar sé að endurreisa gott, lýðræðislegt og opið norrænt velferðarsamfélag. „Og það er það sem við erum að vinna að,“ sagði Steingrímur á Alþingi í dag.

„Það er okkar eindregni ásetningur að láta þetta ekki slá okkur út af laginu og halda áfram ótrauð okkar vinnu,“ sagði hann ennfremur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Steingrím hvort brotthvarf Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslasonar fæli í sér að ríkisstjórnin yrði í betri stöðu til að fylgja þeirri stefnu sem hún hefði fylgt til þessa.

„Verður ríkisstjórnin einbeittari í því og á betur með að gera hlutina eins og hún hefur verið að gera þá. T.a.m. hvað varðar skuldamál heimilanna og umsóknarferlið að Evrópusambandinu,“ spurði Sigmundur.

Steingrímur segir að stefna ríkisstjórnarinnar sé bundin í samstarfsyfirlýsingu flokkanna, völduð af samþykktum í flokkstofninum og stefnuskrá Samfylkingarinnar og VG.  

„Ég legg nú til að menn staldri stundum við á Íslandi og velti því fyrir sér hvað við eigum og hvað við höfum fyrir að þakka. Við búum hérna í tíunda til fimmtánda mesta velmegunarsamfélagi hnattarins - í dag! Þrátt fyrir hrunið sem hér varð. Og við erum í góðu samfélagið með sterka innviði,“ sagði Steingrímur.

„Það er vissulega þannig að því miður eiga þúsundir um sárt að binda og eiga erfitt. Sérstaklega þeir sem hafa misst vinnuna eða lifa af lágmarksbótum eða félagslegri framfærslu. En það er heldur ekki ófriðarbál í okkar landi. Við erum með sterkt og vel þróað samfélag með öfluga innviði. Og háttvirtir svartsýnis- og bölsýnismenn sem eru með himininn helltan af myrkri fullan upp á hvern dag, svo vitnað sé í gamalt textabrot, þeir ættu að hafa þetta í huga,“ sagði fjármálaráðherra ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert