Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að í byrjun þessa mánaðar hafi legið fyrir tillögur frá bönkunum um lausn á skuldamálum um 400 lítill og meðalstórra fyrirtækja. Hann segir mikilvægt að hraða þessari vinnu.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi skuldamál fyrirtækja við upphaf þingfundar í dag. Hann sagði mikilvægt að hraða þessari vinnu. Einnig þyrftu stjórnvöld að stuðla að aukinni fjárfestingu í atvinnulífinu því án öflugs atvinnulífs væri ekki hægt að bæta velferðarkerfið. Hann gagnrýndi einnig skattastefnu ríkisstjórnarinnar og sagði að lækka þyrfti tryggingagjald sem fyrirtæki greiða vegna starfsmanna sinna.
Steingrímur sagði mikilvægt að hraða vinnu við að greiða úr skuldamálum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þegar sú vinna hófst hefði verið talað um að 600 fyrirtæki þyrftu á fyrirgreiðslu á að halda og fyrr í þessum mánuði hefði hann fengið upplýsingar um að fyrir lægju tillögur frá bönkunum um hvernig ætti að taka á málum 400 fyrirtækja. Fyrirtækin þyrftu síðan tíma til að taka afstöðu til tillagnanna. Þessi skuldugu fyrirtæki færu ekki út í fjárfestingar eða að ráða til sín fleira fólk meðan ekki væri tekið á vanda þeirra.
Steingrímur sagði að forsendur atvinnuuppbyggingar væri stöðugleiki, að tekið væri á fjármálum ríkisins og að menn horfðu með bjartsýni fram á veginn. Hann sagði vissulega æskilegt að lækka launatengd gjöld eins og tryggingagjald, en benti á að skattar fyrirtækja væru ekki háir hér á landi í sambandburði við lönd innan OECD.