Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í NV-kjördæmi, verður samkvæmt heimildum vefmiðilsins skutuls.is næsti formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.
Atli Gíslason lætur af formennsku í
nefndinni en hann sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í vikunni. Kosið verður í sjö fastanefndir á Alþingi í dag.
Þá hefur skutull.is eftir heimildum sínum, að Álfheiður Ingadóttir taki við formennsku í viðskiptanefnd í stað Lilju Mósesdóttur, sem einnig sagði sig úr þingflokki VG í vikunni.
Atli og Lilja hafa setið í alls 5 þingnefndum fyrir VG. Nefndirnar eru viðskiptanefnd, þar sem Lilja hefur verið
formaður, og Atli hefur einnig setið í viðskiptanefnd, sjávarútvegs- og
landbúnaðarnefnd, þar sem Atli hefur verið formaður, allsherjarnefnd,
þar sem hann hefur verið varaformaður, menntamálanefnd, þar sem Lilja
hefur verið varaformaður, og iðnaðarnefnd, þar sem Lilja hefur verið
einn nefndarmanna.