Landssamtök landeigenda á Íslandi telja að engin þörf sé á að endurskoða gildandi jarðalög með tilliti til ábúðaskyldu, „hvað þá að hverfa til fortíðar og forræðishyggju í þeim efnum“. Samtökin telja að slíkt muni leiða til lækkunar á verði bújarða.
Stjórn samtakanna ályktaði um málið í framhaldi af orðum Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Hann sagði m.a. að á vorþingi verði lagt fram frumvarp til breytinga á jarðalögum.
Frumvarpið samdi hópur skipaður af ráðherra. Landeigendur benda á að þeir hafi ekki átt fulltrúa í hópnum. Landssamtök landeigenda lýsa þungum áhyggjum vegna hugmynda sem starfshópurinn hefur lagt fram um breytingu á jarðalögum og ábúðarskyldu á jörðum.
„Verði ábúðarskylda á jörðum lögfest á Íslandi munu bújarðir vafalaust falla verði og því er lagabreyting í þá veru þannig bein aðför að bændum og öðrum jarðeigendum. Jafnframt er minnt á að margar jarðir eru nýttar m.a af eigendum nágrannajarða og gera þannig búskap á þeim jörðum mögulegan.
Ef markmiðið með lagabreytingunni er að auðvelda nýliðun í bændastétt er hvorki sanngjarnt eða eðlilegt að það sé gert á kostnað landeigenda einna heldur á kostnað samfélagsins alls.
Landssamtök landeigenda vara við því að eigendur bújarða verði settir á klafa átthagafjötra með því að rýra verðgildi jarða þeirra með vanhugsaðri lagasetningu,“ segir m.a. í ályktun stjórnar Landssamtaka landeigenda á Íslandi.