Fjölskylduhjálp Íslands hefur sent ákall til sjávarútvegs- og fiskverkunarfyrirtækja í landinu um að þau gefi samtökunum fisk fyrir skjólstæðinga sína.
„Stöðugt fjölgar þeim sem sækja sér mataraðstoð til Fjölskylduhjálpar Íslands í viku hverri. Samtökin hafa ekki fjármagn til að kaupa fisk sem nauðsynlegur er fyrir skjólstæðinga okkar og börnin þeirra. Við biðlum til ykkar af heilum hug að styðja við bakið á starfsemi okkar með því að gefa okkur fisk,“ segir í ákallinu.
Að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur, formanns Fjölskylduhjálparinnar, leituðu nærri 1.000 fjölskyldur til samtakanna síðasta miðvikudag. Þar af um 630 í Reykjavík, nærri 200 í Reykjanesbæ og um 100 á Akureyri. Hún reiknar með fleiri í dag, miðvikudag.