Landsvirkjun og Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB) skrifuðu í dag, 23. mars, undir nýjan lánasamning að fjárhæð 70 milljónir evra eða að jafnvirði um 11,3 milljarðar króna.
Lokagjalddagi lánsins er á árinu 2031 og ber lánið millibankavexti auk hagstæðs álags, að sögn Landsvirkjunar. Í lánasamningnum er ákvæði um lágmarks lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.
Fyrirtækið segir, að lánið sé mikilvægur áfangi í fjármögnun Búðarhálsvirkjunar en Landsvirkjun undirritaði sambærilegt lán frá Norræna fjárfestingarbankanum þann 16. mars síðast liðinn að fjárhæð 70 milljónir Bandaríkjadollara. Áfram sé unnið að því að klára fjármögnun Búðarhálsvirkjunar og sé gert ráð fyrir því að henni ljúki innan skamms.
Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að sé ánægjulegt að með þessari lánveitingu sé fjármögnun Búðarhálsvirkjunar langt komin. Lánveitingar bankanna tveggja endurspegli mikið traust á fyrirtækinu.