Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti samhljóða á síðasta fundi sínum að fela sveitarstjóra og skrifstofustjóra að leggja mat á kosti og galla þess að Eyjafjarðarsveit skipti um viðskiptabanka.
Í bókun á fundinum segir, að Eyjafjarðarsveit hafi allt frá upphafi haft bankaviðskipti sín við Arion banka og átt allan þann tíma mjög góð og ánægjuleg samskipti við starfsfólk bankans á Akureyri.
„Á undanförnum vikum hafa borist fréttir af launakjörum bankastjóra sem í sumum tilfellum eru með þeim hætti að vekur undrun. Það er að mati sveitarstjórnar algerlega ólíðandi að á sama tíma og almenningur, fyrirtæki og stofnanir í landinu berjast við að ná endum saman skuli svona launagreiðslur tíðkast. Vegna þessara frétta samþykkir sveitarstjórn að fela sveitarstjóra og skrifstofustjóra að leggja mat á kosti og galla þess að Eyjafjarðarsveit skipti um viðskiptabanka,“ segir í bókuninni.