Forsætisráðuneytið telur að faglega hafi verið staðið að undirbúningi og skipun skrifstofustjóra á nýrri skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ráðuneytinu. „Mannauðsráðgjafi sem hefur unnið að fjölmörgum ráðningum hér á landi og erlendis á faglegum forsendum og komið að smíði nýrrar mannauðsstefnu Stjórnarráðsins vann að ferlinu í heild allt frá gerð auglýsingar til undirbúnings skipunar.
Mat á hæfni umsækjenda er flókið og vandasamt verk og þar koma fjölmörg atriði til skoðunar. Það var samhljóma niðurstaða embættismanna og ráðgjafa, að sá sem skipaður var væri hæfastur til þess að gegna embættinu og var sú niðurstaða kynnt fyrir ráðherra. Einu afskipti ráðherra við undirbúning skipunar var að leggja áherslu á að hæfasti umsækjandinn væri skipaður og sérstaklega væri að því gætt að jafnréttislög væru í alla staði virt.
Ráðuneytið vann málið út frá þeirri grundvallarforsendu að skylt sé að ráða hæfasta umsækjandann og að ekki kæmi til greina að víkja frá skýrri niðurstöðu í ráðningarferli sem væri í mjög föstum skorðum.
Ekki reynir á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 nema talið sé að tveir umsækjendur af sitt hvoru kyninu séu jafn hæfir en svo var ekki í þessu tilviki, að mati ráðuneytisins og ráðgjafans. Það átti alls ekki við í tilviki kæranda, samkvæmt umræddu mati.
Í þessu sambandi skal bent á að kærandi var fimmti í röð í hæfnismati eftir tvær umferðir viðtala við umsækjendur.
Unnið hefur verið að því að jafna kynjahlutföll innan Stjórnarráðsins og hafa hlutföll kynja í stöðum skrifstofustjóra jafnast umtalsvert undanfarna mánuði. Kona er nú í fyrsta sinn forsætisráðherra og kona gegnir jafnframt í fyrsta sinn embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu.
Forsætisráðuneytið hefur þegar farið yfir úrskurð kærunefndar jafnréttismála og málið í heild með ríkislögmanni og mun fara ítarlega yfir það með honum og fleiri aðilum og bjóða kæranda til fundar um málið svo fljótt sem kostur er til þess að fara yfir það.“