Segir forystu VG hafa beðið um áskoranir

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason tilkynntu ákvörðun sína um að …
Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason tilkynntu ákvörðun sína um að hætta í þingflokki VG sl. mánudag. mbl.is/Kristinn

Atli Gíslason alþingismaður segir að hann viti til þess að forysta VG hafi þrýst á stjórnir félaga í Suðurkjördæmi að senda ályktanir þar sem hvatt er til þess að hann víki til hliðar. Atli segist ekki ætla að verða við þeim.

„Þessar áskoranir hafa ekki áhrif á afstöðu mína og ég mun ekki segja af mér,“ sagði Atli, en kjördæmisráð VG í Suðurkjördæmi og nokkur félög VG í kjördæminu hafa hvatt hann til að víkja til hliðar og hleypa varamanni sínum að.

Atli sagðist ekki hafa sagt sig úr VG þó að hann hefði vikið úr þingflokknum og hann sagðist áfram ætla að styðja grundvallarstefnu VG. „Ég tel mig vera þingmann VG í Suðurkjördæmi, hvort sem ég er í þingflokknum eða ekki.“

Atli sagði að þessar áskoranir kæmu sér ekki á óvart. „Ég veit frá fyrstu hendi að forystan í Reykjavík hefur þrýst á um þetta.“

Atli sendi öllum félagsmönnum VG í Suðurkjördæmi bréf eftir að hann tilkynnti um ákvörðun sína. „Ég hef verið í sambandi við flokksmenn VG í kjördæminu síðustu daga. Það er verst hvað margir eru farnir úr flokknum, bæði trúnaðarmenn hans og aðrir. Þessi aðildarumsókn hefur um margt lamað félagsstarfið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert