Umboðsmaður barna varar við niðurskurði

Margrét María Sigurðardóttir umboðsmaður barna.
Margrét María Sigurðardóttir umboðsmaður barna. mbl.is

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til sveitarstjóra, sveitarstjórnarmanna og nefndamanna í skólanefnd eða þeim nefndum sveitarfélaganna sem taka ákvarðanir um skólamál, en í bréfinu er lýst verulegum áhyggjum af áhrifum fyrirhugaðs niðurskurðar í leik- og grunnskólum landsins á börn.

Umboðsmaður barna segist gera sér grein fyrir þeim vanda sem sveitarfélög standa nú frammi fyrir og er því eðlilegt að þau endurskipuleggi starfsemi sína að einhverju leyti og hagræði eins og hægt er. „Hins vegar vill umboðsmaður barna enn og aftur minna á þá skyldu sveitarfélaga að hafa ávallt það sem er börnum fyrir bestu að leiðarljósi við ákvarðanir sínar og taka tillit til sjónarmiða barna við allar ákvarðanir sem varða þau, sbr. 3. og 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Umboðsmaður segir að sér sé kunnugt um að í einhverjum sveitarfélögum hafi mjög faglega verið staðið að hagræðingu og samráð haft við nemendur, fagfólk og foreldra.

„Mikilvægt er að meta sérstaklega hvaða áhrif ákvarðanir um hagræðingu munu hafa þegar til lengri tíma er litið. Reynsla nágrannaþjóða okkur hefur sýnt að niðurskurður í menntakerfinu getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, ekki síst fyrir þá sem standa að einhverju leyti höllum fæti. Verður því að huga sérstaklega að stöðu þeirra barna sem eru með sérþarfir eða eru illa stödd félagslega. Umboðsmanni er kunnugt um ákvarðanir um sameiningar og annars konar hagræðingu í sveitarfélögum sem virðist bitna sérstaklega illa á börnum af erlendum uppruna og börnum sem standa höllum fæti félagslega. Umboðsmaður barna gagnrýnir slíkar ákvarðanir harðlega og telur mikilvægt að sveitarfélög velti fyrir sér afleiðingum þeirra fyrir börnin sem niðurskurðurinn bitnar á. Umboðsmaður dregur verulega í efa að niðurskurður í skólakerfinu verði til hagræðingar fyrir sveitarfélög til lengri tíma litið, þar sem skert þjónusta í skólum er líkleg til þess að leiða til alvarlegri námserfiðleika nemenda, félagslegra vandamála og fleiri barnaverndarmála.

Umboðsmaður barna tekur undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á undanförnum vikum um að ákvarðanir um sameiningar skóla og aðrar aðgerðir til hagræðingar í ákveðnum sveitarfélögum hafi verið teknar án þess að  gerðar hafi verið fullnægjandi úttektir á faglegum grundvelli. Mikilvægt er að ákvarðanir séu teknar af vel ígrunduðu máli og ávallt þannig að tryggt sé að nægileg fagþekking verði enn til staðar í leik- og grunnskólum landsins. Sérfræðiþekking og nægjanlegur fjöldi starfsfólks eru ekki síst mikilvæg til þess að skóli án aðgreiningar geti verið raunhæft markmið,  sérstaklega þegar val barna með sérþarfir milli þess að fara í sérskóla og almenna grunnskóla hefur verið takmarkað.

Umboðsmaður barna skorar á sveitarfélög að endurskoða tillögur um niðurskurð og hagræðingu í skólakerfinu og hafa í huga að hagsmunir barna eiga ávallt að ganga framar fjárhagslegum hagsmunum sveitarfélaga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert