Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir útlit fyrir að skuldir ríkissjóðs í lok þessa árs verði 115 milljörðum minni en spáð var í ársbyrjun 2009. Hann segir skipta gríðarlegu máli að ná tökum á ríkisútgjöldum.
Steingrímur sagði augljóst að lægri skuldastaða en spáð var leiði til minni vaxtaútgjalda fyrir ríkissjóð. Það skipti sköpum varðandi framtíðarhagvöxt að ná tökum á ríkisútgjöldum. Ríkissjóður geti ekki beitt sér til fjárfestinga ef hér verði viðvarandi hallarekstur á ríkissjóði í mörg ár.
Steingrímur sagðist hafa trú á því að tölur um hagvöxt á síðasta ári verði hærri en bráðabirgðatölur Hagstofunnar benda til. Hann sagðist einnig telja að tölur um fjárfestingar séu vanáætlaðar. Hann benti á að spáð væri 15% vexti í ferðaþjónustu og þar ætti sér stað heilmikil fjárfesting, t.d. væri verið að stækka 3-5 hótel. Það væri verið að ráðast í fjárfestingar í hjúkrunarheimilum fyrir um 4 milljarða og Ofanflóðasjóður ætlaði að framkvæma fyrir á annan milljarð.