Ekkert efni til afsagnar

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi að hún teldi ekkert tilefni til afsagnar hennar vegna niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála, sem úrskurðaði að forsætisráðuneytið hefði brotið jafnréttislög. 

Jóhanna sagði að niðurstaða forsætisráðuneytisins, þegar ráðið var í stöðu skrifstofustjóra, hefði verið tekin á faglegum forsendum. Sagði Jóhanna, að ef niðurstaðan hefði verið að ráðningin væri á pólitískum forsendum hefði afsögn komið til greina en ekkert slíkt væri til staðar í þessu máli. 

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokkurinn, spurði Jóhönnu hvort hún væri ekki að íhuga afsögn vegna niðurstöðu kærunefndarinnar og ef svo væri ekki hvort hún ætlaði í dómsmál eða greiða skaðabætur.

Bjarni sagði, að ekki stæði steinn yfir steini í málflutningi Jóhönnu og hún gæti ekki bent a sérfræðinga því ráðherrann bæri hina pólitísku ábyrgð. Ráðherrann verði að taka sjálfstæða afstöðu til mannaráðninga með hliðsjón af jafnréttislögum. 

Jóhanna sagði, að fara þyrfti yfir málið í ljósi þess, að sérfræðingarnir, sem fjölluðu um ráðninguna, hefðu beitt annarri aðferð en kærunefndin beitti síðan. Þá bætti Jóhanna við, að hún hefði ekki heyrt þingmenn Sjálfstæðisflokks kalla eftir afsögn ráðherra þegar úrskurðarnefndir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu gerst brotlegir við lög.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert