Meirihluti menntamálanefndar Alþingis leggur til að ekki verði veittar heimildir til fjölmiðlanefndar að grípa til viðurlaga vegna brota gegn ákvæðum 26. greinar fjölmiðlalaga um lýðræðislegar grundvallarreglur.
Menntamálanefnd hefur afgreitt fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra úr nefnd og má búast við að önnur umræða um frumvarpið fari fram fljótlega. Meirihluti nefndarinnar leggur til fjölmargar breytingar á frumvarpinu. M.a. eru lagðar fram breytingu á hugtökum og orðanotkun. Tillaga er gerð um að notað verði hugtakið fjölmiðlaveita í stað hugtaksins fjölmiðlaþjónustuveitandi. Þá leggur meirihlutinn til að hugtakið viðskiptaboð komi í stað hugtaksins viðskiptaorðsending en til þeirra teljast m.a. auglýsingar, kostun og vöruinnsetning.
Meirihlutinn ræddi ítarlega mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar en þessi réttindi eru varin í stjórnarskrá lýðveldisins sem og í þeim alþjóðasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig að fylgja. Hjá Mannréttindadómstól Evrópu hefur verið staðfest ítrekað að fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðisþjóðfélagi og í ljósi þess hefur dómstóllinn litið svo á að það sé ekki aðeins skylda fjölmiðla heldur einnig réttur almennings að fá slíkar upplýsingar.
„Ríkar ástæður þurfa því að vera til staðar svo að skerðing á starfsemi þeirra teljist réttlætanleg. Hafa dómstólar einkum lagt til grundvallar hvort hagsmunir einstaklings, réttindi og skyldur fjölmiðla hafa meira vægi en hagsmunir samfélagsins. Sambærileg sjónarmið hafa verið uppi þegar reynir á takmarkanir á friðhelgi einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsi hins vegar. Niðurstaða hagsmunamats verður að ráðast í hverju máli fyrir sig og þá einkum af því hvort vegur þyngra hagsmunir einstaklings að njóta friðar um einkahagi sína og mannorð eða nauðsyn þess að viðhalda frjálsri lýðræðislegri umræðu um málefni er varða almenning.
Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að ekki verði að
svo stöddu veittar heimildir til fjölmiðlanefndar að grípa til
viðurlaga, þ.e. stjórnvaldssekta og refsinga, vegna brota gegn
ákvæðum 26. gr. Með þessu vill meiri hlutinn árétta að ákvæðið um
lýðræðislegar grundvallarreglur beri að túlka sem stefnuyfirlýsingu um
grundvallarreglur í fjölmiðlun en ekki sé
með því ætlunin að setja tjáningarfrelsi íslenskra fjölmiðla auknar
skorður,“ segir í nefndarálitinu.
Sjálfstæðismenn í nefndinni eru á móti frumvarpinu og standa ekki að breytingatillögunum. Þeir segja að ekki verði deilt um það að skynsamlegt og rétt er að setja samræmda rammalöggjöf um starfsemi fjölmiðla hér á landi. Markmið slíkrar löggjafar hljóti annars vegar að vera að styrkja starfsemi fjölmiðla, efla frjálsa og óháða fjölmiðlun og hins vegar að auðvelda almenningi aðgang að upplýsingum og fjölmiðlum. Minnihlutinn segist vera sammála þeim markmiðum sem koma fram í 1. gr. frumvarpsins um að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum sem og að efla vernd neytenda.
„Frumvarpið nær hins vegar ekki þessum markmiðum og í
sumum tilfellum er gengið þvert
á þau. Frumvarpið tekur í raun lítið á yfirlýstum megintilgangi sínum,
þ.e. að stuðla að
fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum. Fjölmiðlar eru háðir
efnahagssveiflum sem aftur kemur
niður á sjálfstæði þeirra og möguleikanum fyrir marga (fjölræði) til að
búa til fjölbreytt ritstjórnarefni (fjölbreytni). Ekki kemur fram í
frumvarpinu með hvaða hætti stuðla eigi að eða
auka framboð á vönduðu og fjölbreyttu ritstjórnarefni.“