Óvissa ríkir um framgang frumvarps til laga um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, en fyrirhugað var að það yrði lagt fram í þessari viku. Ljóst er að svo verður ekki. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er raunar allt annað en öruggt að frumvarpið komi til kasta Alþingis yfir höfuð á yfirstandandi þingi.
Breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hafa verið eitt af helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa hins vegar goldið varhug við miklum breytingum á núverandi fyrirkomulagi og ljóst að mótstaðan er nokkur.
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir skort á samráði, nú síðast Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sem segir málið virðast orðið „einkamál ríkisstjórnarinnar“.
Þá hefur brotthvarf Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur úr stjórnarliðinu haft áhrif á málið. Meðal annars vék Atli af formannsstóli sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.